Skoðun

Sleppt og haldið

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Stjórnmálamaður/verkalýðsleiðtogi: „Það er mjög mikilvægt að í þessum samningum verði lægstu laun hækkuð verulega umfram önnur laun.“

Sami stjórnmálamaður/verkalýðsleiðtogi viku síðar: „Það er mjög mikilvægt að menntun verði metin til launa. Það gengur ekki að vinnumarkaðurinn viðurkenni ekki menntun.“

Við þekkjum þennan stjórnmálaverkalýðsleiðtoga, við höfum heyrt þessar ræður ansi oft, erum orðin vön þeim. Vandinn er sá að þetta tvennt, hækkun lægstu launa umfram önnur laun og krafan um að meta menntun til launa fer ekki alveg saman þegar til lengri tíma er horft. Þegar lægstu laun hækka umfram önnur laun í samfélaginu minnkar launamunurinn og þegar launamunurinn minnkar verður umframávinningurinn af menntun minni. Eftir því sem þeir, sem enga menntun hljóta eftir að grunnskólanámi lýkur, komast nær hinum menntuðu í launum, þá minnkar hlutfallslegi ávinningurinn af því að mennta sig.

Á þá staðreynd hefur verið bent að launamunur er nánast hvergi minni en hér á Íslandi og er reyndar furðulegt að hlusta á umræðu sem virðist ganga út frá því að launamunurinn sé hvað mestur hérna.

En það er staðreynd sem sjaldnar er rædd, að í alþjóðlegum samanburði skilar menntun ekki miklu í launaumslagið hér á landi.

Um þetta ræða stjórnmálamenn og verkalýðsleiðtogar sjaldan, þeir vilja nefnilega bæði hækka lægstu launin og að menntun skili hærri launum. En næst þegar þið heyrið stjórnmálamann tala um mikilvægi menntunar, spyrjið þá um launamuninn og næst þegar þið heyrið verkalýðsleiðtogann tala um mikilvægi þess að hækka lægstu laun, spyrjið þá um menntun og laun. Það er þetta með að eiga kökuna og borða hana.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×