Chuck ehf. sem stofnað var í apríl 2014 við opnun Chuck Norris Grill á Laugaveginum hefur verið úrskurðað gjaldþrota. Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu í dag. Úrskurðurinn var kveðinn upp í Héraðsómi Reykjavíkur þann 21. mars. Veitingastaðurinn Chuck Norris Grill er þó enn rekinn á Laugavegi en í öðru félagi.
Skiptastjórinn Pétur F. Gíslason segir í samtali við Vísi að málið sé á frumstigi. Fyrir liggi sex milljóna krafa Tollstjóra í búið en hluti þeirra sé sektargreiðslur vegna vanskila á ársreikningum.
Pétur segir að Chuck ehf. hafi verið skráð með vánúmer frá árinu 2015. Rekstur veitingastaðarins hafi því líklega um svipað leyti verið færður yfir á nýtt félag.
Chuck Norris grill á Laugavegi 30 hefur verið rekið þar frá því í apríl 2014. Meðal eigenda er Vilhjálmur Sanne sem hefur einnig verið einn eiganda barsins Dillon sem er á efri hæð í sama húsi.
Í Lögbirtingablaðinu er skorað á alla þá, sem telja til skulda eða annarra réttinda á hendur búinu eða eigna í umráðum þess, að lýsa kröfum sínum fyrir undirrituðum skiptastjóra í búinu innan tveggja mánaða frá fyrri birtingu innköllunar þessarar.
Skiptastjóranum hefur ekki tekist að boða Vilhjálm enn á sinn fund. Ekki náðist í Vilhjálm við vinnslu fréttarinnar.
Uppfært klukkan 13:20
Vilhjálmur Sanne segir í samtali við Vísi að unnið sé að því að fá afturkalla gjaldþrotabeiðnina og fá úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hnekkt. Hann ætli að vinna að því í samvinnu við skiptastjórann.
„Við ætlum að fá búið til baka, þegar búið er að skila inn ársreikningi og framtali ásamt leiðréttingu á vaski þá á félagið inneign hjá tollinum,“ segir Vilhjálmur.
„Þó að það sé vánúmer þá er enginn vsk skuld á félaginu, það var bara ekki sótt um að opna það aftur þegar það var allt greitt upp vegna þess að það var ekki verið að nota vsk númerið.“
