Atletico Madrid er komið í úrslitaleik Evrópudeildarinnar eftir 1-0 sigur á Arsenal í síðari leik liðanna í undanúrslitunum.
Fyrri leikurinn endaði með 1-1 jafntefli og það var útlit fyrir spennandi leik í kvöld á Spáni á hinum glænýja Estadio Wanda Metropolitano.
Arsenal varð fyrir áfalli strax á tólftu mínútu er Laurent Koscielny meiddist. Meiðsli hans virkuðu alvarleg og er óttast að hans sé með slitna hásin. Sé það raunin mun hann ekki spila með Frakklandi á HM í sumar.
Fyrsta mark leiksins kom á síðustu mínútu fyrri hálfleiksins er Diego Costa fékk sendingu frá Antoine Griezmann en varnarleikur Arsenal í markinu var nánast barnalegur.
Arsenal reyndi að sækja í síðari hálfleik enda þurfti liðið eitt mark til þess að koma leiknum í framlengingu. Það tókst ekki og Costa skaut því Atletico í úrslitaleikinn. Þar mætir liðið annað hvort Salzburg eða Marseille en framlengingin er í gangi þar.
Þetta var því síðasti leikur Arsene Wenger í Evrópukeppnum með Arsenal en hann hættir í lok tímabilsins. Hann á þrjá leiki eftir með Arsenal en þetta var svanasöngur hans í Evrópukeppnum með liðinu.

