Þar segir að markaðurinn fyrir jógúrtvörur í Japan sé sá næst stærsti í heiminum, á eftir Bandaríkjunum og velti um 5 milljörðum dollara á ári. Með hliðsjón af því og styrk viðsemjandans er þetta stærsti samningur sem MS hefur gert um framleiðslu á Ísey skyri. Samningurinn var undirritaður í höfuðstöðvum Nippon Ham í dag af forstjórum Nippon Luna, MS og íslensk japanska fyrirtækisins Takanawa sem kom að gerð samningsins með MS og mun sjá um framkvæmd hans í framtíðinni. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands og Elín Flygenring, sendiherra Íslands í Japan, voru viðstödd undirritunina.

MS hefur fundið fyrir miklum áhuga frá Japan undanfarin ár og fær sendiráðið í Japan fjölda fyrirspurna um hvar sé hægt að kaupa Ísey skyr þar í landi. Þá fjallaði tímarit í eigu 7-11, stærstu verslunarkeðju Japans, nýlega um Ísey skyr þar sem vörunni var lýst á þann hátt að hér væri komin sú vara sem helst vantaði á japanska mjólkurvörumarkaðinn. Japan er það land sem önnur ríki í Asíu horfa til þegar kemur að vörunýjungum og binda ráðamenn MS vonir við að innkoma Ísey skyrs á japanskan markað muni opna asískan markað enn frekar fyrir Ísey skyr.