Veiðigjaldafrumvarpið hefur sett þingstörf á hliðina en rúm vika er síðan atvinnuveganefnd lagði til lækkun á veiðigjöldum. Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður nefndarinnar, taldi þetta þá vera mikilvægt mál sem þyrfti að samþykkja.
„Ég skynja reiði meðal flokksmanna og töluvert öðruvísi og þyngri tón en áður. Flokkurinn hefur fengið yfir sig margar gusurnar síðan ríkisstjórn var mynduð síðastliðið haust. Sú reiði sem kom við stjórnarmyndun er skiljanleg. Hins vegar er þyngri tónn í reiðinni núna og þetta mál ristir dýpra í hugum flokksmanna,“ segir Edward Hákon Huijbens, varaformaður Vinstri grænna.

„Mitt persónulega mat er að veiðigjaldamálið þurfi meiri yfirlegu.“Edward segir VG hafa fengið á sig nokkuð ómaklega gagnrýni á síðustu mánuðum. Samstarfið hafi tekið á. Ekki er langt síðan þingmenn og ráðherrar flokksins skiptu um skoðun á embættisfærslum dómsmálaráðherra til að viðhalda stjórnarsamstarfinu.
„Gagnrýni á flokkinn hefur verið mikil og hún skiptist að mínu mati í tvennt. Annars vegar strangt og gott aðhald í félagsmönnum þar sem virkir félagsmenn veita uppbyggilega og vandaða gagnrýni,“ segir Edward.
„Hins vegar er svo gagnrýni sem er að einhverju leyti ómakleg. Við verðum að muna að flokkurinn fékk 17 prósenta fylgi og er ekki einráður í ríkisstjórn. Svo virðist sem skuldinni sé skellt á Vinstri græn fyrir allt sem aflaga kunni að fara.“