„79 prósent þeirra sem koma til okkar hafa upplifað ofbeldi á endurtekin hátt,“ segir Ragna Björk í samtali við Vísi. Hún segir mikilvægt að mæta fólki sem kemur í Bjarkarhlíð út frá áfallamiðaðri nálgun.
„Þessi skilningur sem fellst í því hvað það er að vera þolandi og skilningur á einkennum eins og áfallastreituröskun, að fólk getur haft endurupplifanir, átt erfitt með svefn og getur átt erfitt með aðstæður sem minna á atvikin. Þessir hlutir geta komið upp þegar verið er að fara í gegnum þessa sögu. Þannig að maður sé meðvitaður um að það gæti verið erfitt fyrir fólk að tala um ákveðna hluti sem setja í gang endurupplifanir eða eitthvað slíkt. Skilningur á eðli ofbeldis og áfalla.“

Stærsti hópurinn orðið fyrir heimilisofbeldi
Bjarkarhlíð tók formlega til starfa 1. febrúar á síðasta ári og er þjónustumiðstöð fyrir fullorðna þolendur ofbeldis. Á fyrstu 10 mánuðunum leituðu 316 einstaklingar í Bjarkarhlíð.„Ég held að við getum sagt að við séum að ná til fólks og að fólk sé að leita til okkar sem að vill fá aðstoð við að komast út úr ofbeldissamböndum. Stærsti hlutinn af okkar málum er fyrsta ástæðan fyrir komu vegna heimilisofbeldis. Það er stærsti hópurinn.“
74 prósent þeirra sem koma í Bjarkarhlíð eru þar vegna heimilisofbeldi eða ofbeldis í nánum samböndum. Ragna Björk segir erfitt að segja til um það hversu hátt hlutfall þeirra sem leita til þeirra fara aftur í ofbeldissambandið.
„Það er svolítið misjafnt hvar fólk er statt þar.“
Mikilvæg vitundarvakning
Í Bjarkarhlíð gefst einstaklingum kostur á viðtölum og ráðgjöf hjá félagsráðgjöfum, lögreglu og lögfræðingum þeim að kostnaðarlausu og á þeirra forsendum. Ragna Björk segir að í Bjarkarhlíð finni þær fyrir þörf fyrir greiðari aðgang þolenda ofbeldis að meðferð við áfallastreituröskun.„Það er gríðarlegur kostnaður fyrir fólk ef það þarf að fara til einkaaðila.“ Segir Ragna Björk.
Ragna Björk segir að #MeToo byltingin hafi orðið til þess að mun fleiri þora að stíga fram og segja frá ofbeldi og leita sér hjálpar. Hún segir að #MeToo umræðan sé ótrúlega mikilvæg.
„Þessi vitundarvakning í samfélaginu að það er enginn skömm að því að verða fyrir ofbeldi og það er engin skömm að því að leita sér hjálpar. Það er bara styrkleiki allra sem eru í ofbeldisaðstæðum að geta beðið um hjálp. Það er bara einn sem ber ábyrgð á ofbeldinu og það er gerandinn.“
Málþingið Ofbeldi sem kerfið lítur framhjá og ósýnileiki gerendaer frá klukkan 13 og 17 í dag fer fram á Icelandair Hotel Reykjavík Natura. Málþingið er opið öllum og kostar 500 krónur inn. Nánari upplýsingar má finna á Facebook en streymt verður frá fundinum hér á Vísi.