„Skýringin á því að ég hlustaði ekki á viðvörunarbjöllurnar er bara fyrst og fremst að ég gefst ekki upp. Ég labba ekki í burtu þótt að á móti blási stundum.“
Sonja segir að enginn hafi vitað af ofbeldinu og ráðleggur öðrum í sömu stöðu að láta einhvern vita.
„Lærðu að þekkja rauðu ljósin. Hlustaðu á ónotatilfinninguna í maganum og segðu frá.“
Herferðin miðar að því að minna á að ofbeldi birtist smátt og smátt í samböndum, að ýmis viðvörunarmerki eru oft undanfari ofbeldisins. Vitundarvakningin felst í stuttum myndböndum þar sem nokkrar hugrakkar konur sem stigið hafa út úr ofbeldissamböndum líta til baka og ræða viðvörunarljósin sem birtust í sambandinu þó þær hafi ekki séð þau fyrr en of seint.
„Það er von okkar að þessi vitundarvakning auki skilning fólks á ofbeldi í nánum samböndum og hjálpi fólki að sjá rauðu ljósin áður en til ofbeldis kemur.“
Kynntu þér úrlausnir hjá Bjarkarhlíð og Kvennaathvarfinu.