Geðlæknarnir vita varla hvernig þeir eiga að snúa sér í þessum óvanalegu aðstæðum vegna þess að í áfallameðferð er sá háttur vanalega hafður á að skjólstæðingurinn er kominn í örugga höfn og áfallið liðið hjá áður en meðferð er hafin að sögn Dr. Ruth Gerson, yfirlæknis við Bellevue barnaspítalans sem tjáði sig um ástandið á spítalanum við New York Times.
Þetta sé aftur á móti langt því frá að vera tilfellið hjá þeim börnum sem voru skilin að frá foreldrum sínum á síðustu vikum. Þau búi enn við hörmungarástand, áföllin haldi áfram að dynja yfir þau og þá viti mörg þeirra ekki hvernig komið er fyrir fjölskyldum þeirra.
„Við sem geðlæknar erum í erfiðari stöðu en venjulega vegna þess að við vitum ekki hvernig við eigum að hjálpa þeim. Við erum ekki með allar staðreyndir málsins á hreinu og það gerir áfallameðferðina mun flóknari en ella,“ segir Dr. Gerson sem lýsir yfir áhyggjum sínum af börnunum.

„Það er mikilvægt fyrir fólk að hafa í huga að börn geta líka veikst af alvarlegu þunglyndi og sjálfsvígshugsanir geta jafnvel sótt á þau, jafnvel á leikskólabörn.“ Hún biðlar til fósturforeldra að taka allri tjáningu, í þá veruna frá börnum, alvarlega. Hún segir að ófaglært fólk geti mistúlkað einkenni þeirra barna sem eru með áfallastreituröskun.
Læknar, sem starfa hjá heilsugæslustöðvum í New York, og sem hafa unnið með börnunum, eru í auknum mæli farnir að gera sér grein fyrir alvarleika stöðunnar hvað varðar andlega heilsu þeirra. Það er ekki aðeins andleg heilsa sem læknarnir hafa áhyggjur af, þeir hafa líka áhyggjur af líkamlegu ástandi þeirra þar sem mörg börn séu um þessar mundir í umsjá fósturforeldra sem þekki ekki til sjúkrasögu þeirra.
Fósturforeldrar að minnsta kosti tólf barna hafa þurft að leita til spítalans með börnin vegna þess að þau hafi ekki vitað hvað amaði að þeim. Fósturforeldrarnir hafi þó staðið sig afar vel í erfiðum aðstæðum.
Sum barnanna glíma við astma en sökum þess að foreldrar þeirra voru sendir í burtu hafi verið erfitt að átta sig á sjúkrasögu þeirra. Nokkrir læknar brugðu á það ráð að spyrja systkini barnanna, sem sjálf voru börn, um sjúkrasöguna.