Breska ríkisstjórnin hefur náð samkomulagi um framtíðarsamband Bretlands við Evrópusambandið eftir Brexit. Þetta kom fram í máli Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, í kvöld að loknum 12 klukkustunda löngum ríkisstjórnarfundi.
Samkomulagið felur það í sér að samið verður um fríverslun með iðnaðar- og landbúnaðarvörur á milli Bretlands og ESB. Verður samningurinn byggður á því sem kallað er „sameiginlegt regluverk“ í breskum fjölmiðlum.
„Þetta er tillaga sem ég tel að sé góð fyrir Bretland og góð fyrir ESB og ég hlakka til þess að sjá þessu vel tekið,“ sagði May.
Laura Kuenssberg, ritstjóri stjórnmálaumfjöllunar hjá BBC, segir að samkomulagið muni vekja reiði hjá mörgum samflokksmönnum May í Íhaldsflokknum. Hún segir að May hafi í raun valið sér lið með því að velja nánara samband við ESB en margir flokksmenn vildu. May þurfi núna „að selja“ flokksmönnum þessa leið sem og leiðtogum annarra Evrópuríkja.
May boðaði alla 26 ráðherrana í ríkisstjórn til fundar á sveitasetri sínu Chequers í dag til að freista þess að leysa ágreining innan stjórnarinnar um hvernig sambandi Bretlands við ESB skuli háttað og þar með höggva á hnútinn í samningaviðræðunum við Evrópusambandið.
Samkomulag í höfn innan bresku ríkisstjórnarinnar um sambandið við ESB

Tengdar fréttir

Útgöngutillögum Breta lýst sem óraunhæfum og líkt við köku
Háttsettir ráðamenn innan Evrópusambandsins (ESB) segja tillögur Breta í samningaviðræðum um skilmála útgöngu þeirra úr sambandinu vera óraunhæfar.

Spenna innan bresku ríkisstjórnarinnar fyrir Brexit-uppgjör
Breska ríkisstjórnin reynir að stilla saman strengi sína varðandi Brexit á fundi utan við London í dag. Jafnvel er búist við afsögnum ráðherra.