Bakkafjarðarhöfn er meðal þeirra sem lifna hvað mest við þegar strandveiðarnar hefjast á vorin og þegar fréttamenn Stöðvar 2 voru á staðnum streymdu smábátarnir inn til löndunar. Meðal þeirra er Auðbjörg NS frá Seyðisfirði. En hversvegna kýs Seyðfirðingur að róa frá Bakkafirði?
„Það er bara hagstæðara með miðin og aflann,“ segir Páll Ágústsson um leið og hann bendir á óvenju væna þorska.
„Þetta köllum við átta plús, - kíló. Ég fékk einn um daginn, hann var 32 kíló.“

„Nei, þetta er núna síðustu tíu ár, eða eitthvað svoleiðis. Þetta var aldrei hér áður, sko,“ segir Páll og lyftir einum stórþorski sem við köllum hreinlega bara skrímsli.
„En þessi sem var 32, ég rétt náði honum inn. Hann var erfiður."
Á bátafjöldanum er auðséð að Bakkafjörður er vinsæll strandveiðiútgerðarstaður.
„Já, ég held að þessi höfn, hún hefur ábyggilega verið oft í öðru eða þriðja sæti á landinu í afla.“
Og hér sjáum við einnig báta meðal annars frá Húsavík og Norðfirði.
„Það eru einir fimmtán bátar sem eru að róa héðan núna,“ segir Páll, og eftir að viðtalið var tekið sagði heimamaður okkur að bátarnir væru komnir yfir tuttugu.

„Hundrað krónum hærra en í fyrra á þessum fiskum,“ segir Páll og bendir á stóra þorskinn. Þetta er því búbót.
„Allavega núna. Það er mikið betra verð heldur en var í fyrra. Það var nú alveg niður í rassgati, sko. Það var nú eiginlega bara til skammar.“
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: