Laugaland er einkarekið meðferðarheimili sem starfar samkvæmt rekstrarsamningi og undir yfirstjórn Barnaverndarstofu, sem sinnir jafnframt eftirliti með heimilinu.
Eignarhaldsfélagið Pétur G. Broddason ehf., samnefnt rekstraraðilanum, var stofnað vegna reksturs meðferðarheimilisins og fyrsta heila starfsár fyrirtækisins var árið 2008. Frá þeim tíma hefur einkahlutafélagið, þar sem Pétur er eini eigandi fyrirtækisins og framkvæmdastjóri þess frá upphafi, greitt sér rúmar 42 milljónir króna út úr fyrirtækinu.

Pétur vildi lítið ræða við blaðamann um arðgreiðslur út úr fyrirtækinu.
„Ég hef bara ekki hugmynd um það, þú verður bara að spyrja Barnaverndarstofu að því. Ég rek fyrirtækið undir yfirstjórn hennar þannig að ég vísa því bara þangað. Allir ársreikningar mínir fara þangað,“ segir Pétur. „Það er lögum samkvæmt heimilt og í rauninni er þetta bara allt annað en menn geta ímyndað sér. Í rauninni er þetta hluti af mínum launum við að reka fyrirtækið. Það er mitt að ákveða hvernig ég geri það eins og í öðrum fyrirtækjum.“
Velferðarráðuneytið var strax árið 2011 hvatt, í skýrslu Ríkisendurskoðunar, til að taka afstöðu til einkarekinna meðferðarheimila sem rekstrarforms.

„Það fer gott orð af úrræðinu á Laugalandi. Hins vegar erum við nú að fara yfir öll þessi úrræði sem við erum að bjóða og heildarendurskoðun hafin innan starfshóps og von er á að þeirri vinnu ljúki nú á haustmánuðum,“ segir Ásmundur Einar Daðason velferðarráðherra.
„Þetta hlýtur að verða skoðað samhliða í þeirri vinnu. Það er ekki eðlilegt að menn séu að greiða sér háan arð úr svona fyrirtækjum. Það er ekki markmið ríkissjóðs að einstaklingar þéni á úrræðum. Það er markmið ríkissjóðs að við veitum góð úrræði.“