Þung umferð hefur verið um land allt í dag þar sem landsmenn snúa heim eftir ferðalög helgarinnar. Veðurfar hefur haft áhrif á umferð sem annars hefur gengið vel.
Búist er við þungri umferð um land allt fram eftir kvöldi. En landsmenn eru margir hverjir á heimferð eftir ferðalög helgarinnar. Fjölmennust var Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum þar sem um 15 þúsund manns komu saman og hefur verið þung umferð frá Landeyjarhöfn en fyrsta ferð með Herjólfi fór klukkan 2 í nótt og verða sigldar ellefu ferðir í dag.
Löng röð hefur myndast á bryggjunni þar sem þjóðhátíðargestir bíða ólmir eftir að komast um borð.
Að frátöldu umferðarslysi á Suðurlandinu á föstudag hefur umferðin gengið vel að sögn Samgöngustofu. Þá hafa ferðalangar verið varir við hvassviðri víða um land, sér í lagi á Suðurlandi.
Lítið hefur verið um ölvunar- og fíkniefnaakstur á landsbyggðinni en hún hefur verið meiri í höfuðborginni.
Annars má segja að flóð í Skaftá og hvassviðri hafi haft áhrif á umferð um verslunarmannahelgina en miklar vindhviður eru á sunnanverðu landinu og sumstaðar hafa þær farið upp í 28 m/s.
Hildur Guðjónsdóttir, sérfræðingur öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu segir ökumenn almennt skynsamari, upplýstari og þolinmóðari í umferðinni en áður.
„Þessi helgi er að koma mjög vel út í samanburði við síðastliðnar helgar. Eftirlit lögreglu hefur verði mjög gott og öflugt. Fólk sýnir mikla skynsemi á vegum landsins. Margir tóku sig til og lögðu fyrr af stað í gær til að forðast hvassviðri og erum við gríðarlega ánægð með það,“ segir Hildur Guðjónsdóttir.
