Að sögn Ásthildar gerir hún ráð fyrir því að hefja störf um miðjan september og að fram undan sé leit að húsnæði fyrir fjölskylduna á nýjum stað.
Ásthildur var bæjarstjóri í Vesturbyggð frá 2010 og þar til í vor. Hún er með BA-próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu frá PACE University í New York.
Þá var Ásthildur um tíma framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi.
„Viðræður gengu hratt og vel fyrir sig og við erum búin að ræða öll stóru málin.“ Ásthildur segir að hún hafi náð að setja sig lítillega inn í málefni bæjarins. Hún segist vera spennt fyrir því að koma inn sem faglega ráðinn bæjarstjóri og segist geta unnið með fólki úr öllum flokkum.
„Þetta var í rauninni draumastarfið. Það var annaðhvort þetta eða að fara inn á einhvern annan vettvang.“Meirihluti L-lista, Samfylkingar og Framsóknarflokks hélt velli í sveitarstjórnarkosningunum í vor og var ákveðið að endurnýja meirihlutasamstarfið.
Ákveðið var að auglýsa starf bæjarstjóra en Eiríkur Björn Björgvinsson, sem gegnt hefur starfi bæjarstjóra síðustu átta ár, ákvað í ársbyrjun að sækjast ekki eftir áframhaldandi ráðningu.
Alls sóttu átján einstaklingar um starf bæjarstjóra en tveir umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka.