Ítalska leikkonan Asia Argento hefur krafið bandarísku starfssystur sína og fyrrverandi vinkonu, Rose McGowan, um að draga til baka yfirlýsingu sem sú síðarnefnda sendi frá sér í kjölfar þess að leikarinn Jimmy Bennett sakaði Argento um kynferðisofbeldi.
Argento setur fram kröfur sínar í færslu sem hún birti á Twitter-reikningi sínum í dag. Hún biður McGowan um að bæði draga til baka og biðjast afsökunar á „hryllilegum lygum“ sem hafi verið að finna í yfirlýsingunni.
„Ef þú svarar ekki fyrir þetta níð mun ég ekki eiga þess annarra kosta völ en að grípa til málsóknar,“ skrifar Argento og beinir orðum sínum þar til McGowan. McGowan hefur ekki svarað Argento þegar þetta er ritað.
Dear @RoseMcGowan. It is with genuine regret that I am giving you 24 hours to retract and apologise for the horrendous lies made against me in your statement of August 27th. If you fail to address this libel I will have no option other than to take immediate legal action.
— Asia Argento (@AsiaArgento) September 17, 2018
Argento viðurkenndi í ágúst að hafa greitt leikaranum Jimmy Bennett 41 milljón íslenskra króna fyrir að þegja um meint kynferðisbrot sem hún á að hafa framið gegn honum á hótelherbergi í Kaliforníu árið 2013. Bennett var sautján ára þegar meint brot voru framin en samræðisaldur í Kaliforníu er átján ár.
Sjá einnig: Sjálfa uppi í rúmi, óstaðfest smáskilaboð og greiðsla frá Anthony Bourdain
McGowan sendi í kjölfarið frá sér yfirlýsingu en þær Argento urðu nánar vinkonur í starfi sínu sem tveir af helstu forkólfum #MeToo-hreyfingarinnar. Í yfirlýsingunni biðlaði McGowan til Argento að „breyta rétt“ og vera sanngjörn í máli Bennett.
Þá kom einnig fram í yfirlýsingunni að Argento hafi sagt McGowan og kærustu hennar, fyrirsætunni Rain Dove, frá málinu er þær dvöldu saman í Berlín skömmu eftir andlát Anthony Bourdain, kærasta Argento. Þá greindi McGowan einnig frá því að SMS-skilaboð, sem Argento sendi ónefndum vini sínum vegna ásakana Bennetts og láku síðar í fjölmiðla, hafi verið til áðurnefndrar Dove.