Vísir bar ummæli Þorsteins Sæmundssonar, þingmanns Miðflokksins, undir framkvæmdastjórann síðastliðinn föstudag en þingmaður hefur haldið því fram að verð í H&M á Íslandi sé mun hærra en í verslunum sænsku fatakeðjunnar í öðrum löndum.
Framkvæmdastjórinn, Dirk Roennefahrt, hafnaði þessum fullyrðingum þingmannsins og sagði fatakeðjuna gera reglulegar verðkannanir á þeim mörkuðum sem hún er á til að tryggja að hún sé samkeppnishæf.
„Þvílík óskammfeilni,“ ritar Gylfi á Facebook þar sem hann deilir fréttinni en hann var efnahags- og viðskiptaráðherra utan þings á árunum 2009 til 2010.
„H&M er miklu dýrara hér en í Noregi, það blasir við á verðmiðunum þeirra sem sýna verð í báðum löndunum. Er H&M í Noregi þó líklega það dýrasta utan Íslands,“ segir Gylfi.
Hann vill meina að það sé útúrsnúningur hjá framkvæmdastjóranum þegar hann svarar því að H&M geri verðkannanir og þess vegna sé H&M á Íslandi ekki dýrara en annarsstaðar.
„Það er hreinn útúrsnúningur enda ekki það sem spurt er um heldur hvers vegna þeir okra sérstaklega á Íslendingum umfram aðra. Enginn Íslendingur með snefil af sjálfsvirðingu ætti að stíga fæti inn í þessar sjoppur hérlendis,“ skrifar Gylfi.