Bandaríski leikstjórinn Rob Reiner er staddur á Íslandi um þessar mundir á ferðalagi með konu sinni og dóttur.
Dóttirin, hin tvítugi ljósmyndari Romy Reiner, sýnir frá ferðalagi þeirra á Íslandi á Instagram.
Reiner, sem varð 71 árs á árinu, hefur leikstýrt stórmyndum á borð við When Harry met Sally, The Princess Bride, A Few Good Men, The American President og Misery að ógleymdri grínheimildarmyndinni This is Spinal Tap.
Nýlega, eða árið 2013, lék hann einnig í myndinni The Wolf of Wall Street.
Áður en hann gerðist leikstjóri spreytti hann sig í leikarahlutverkinu meðal annars í sjónvarpsþáttunum All in the Family og hlaut Emmy verðlaun fyrir í tvígang.
Fjölskyldan virðist hafa tekið hinn klassíska gullna hring. Fjölskyldan var á ferðalagi um Suðurlandið í gær og kom meðal annars við á Gullfossi og Geysi auk þess að heilsa upp á íslenska hestinn. Samkvæmt heimildum Vísis sást til Reiner í Hyrnunni í Borganesi í dag þar sem hann tók bensín.
