Veitingastaðurinn Egill Jacobsen í Austurstræti, sem starfað hefur í rýminu sem áður hýsti Laundromat, hættir starfsemi um áramótin. Öllum 25 starfsmönnum staðarins var tilkynnt um lokunina um síðastliðin mánaðamót, um leið og þeir fengu uppsagnarbréf í hendurnar.
Jóhann Friðrik Haraldsson, eigandi staðarins, segir ákvörðunina að vonum þungbæra, tildrög hennar hafi verið áfall fyrir alla og að það séu mikil vonbrigði að þurfa að skella í lás aðeins tíu mánuðum eftir að Egill Jacobsen opnaði fyrst dyrnar.
Ástæðan hafi þó í raun verið einföld: Hækkandi kostnaður samhliða dræmari aðsókn en spár höfðu gert ráð fyrir gerðu reksturinn þungan.
Nefnir Jóhann Friðrik sérstaklega í þessu samhengi leiguverðið á þessum fjölfarna stað í miðborginni. Það hafi hækkað um 43 prósent á milli ára, og hátt var það fyrir. Þar að auki hafi allur aðfangakostnaður aukist, sem og launagreiðslur. Rekstrarumhverfið sé því ekki upp á marga fiska - og ekki bæti hörð samkeppni á svæðinu úr skák.
Aðspurður segist Jóhann ekki vita hvaða rekstur verður í rýminu eftir að Egill Jacobsen hverfur á braut. Það verði í það minnsta ekki á hans vegum, en Jóhann Friðrik hefur mikla reynslu af veitingarekstri í borginni. Til að mynda kom hann að rekstri fyrrnefnds Laundromat í rýminu, áður en Egils Jacobsen naut við. Hann segist þó vona að nýir rekstraraðilar í rýminu horfi til þess góða starfsfólks sem ljáð hafi Agli Jacobsen krafta sína síðastliðna mánuði. Ekki skemmi fyrir að það þekki vel til húsnæðisins.
Skella í lás í Austurstræti eftir tíu mánaða rekstur

Tengdar fréttir

Gefast upp á Laundromat draumnum í Laugardal
"Fúlt! Hefði verið frábær viðbót við hverfið okkar,“ segir einn af fjölmörgum fúlum íbúum í Laugardal.