Sigurður Þórir Jónasson, verslunarstjóri Toys R' Us á Smáratorgi, segir í samtali við Ríkisútvarpið að engin skilaboð hafi enn borist að utan. Því muni starfsfólk Toys R' Us, sem rekur þrjár verslanir hér á landi, halda sínu striki. Starfsmennirnir eru um þrjátíu talsins að sögn Sigurðar.
Sjá einnig: Móðurfélag Toys R' Us á Íslandi gjaldþrota
Verslanirnar þrjár, á Smáratorgi, í Kringlunni og á Akureyri, verði því að minnsta kosti opnar í dag. Síðustu birgðasendingarnar að utan hafi borist á milli jóla og nýárs en alla jafna sé lítið um leikfangasendingar til landsins í janúar.
Viðskiptavinir Toys R' Us á Íslandi voru hvattir til að nýta gjafabréf sín í verslununum, „meðan það er hægt,“ eins og sagði í Facebook-færslu íslensku verslananna. „Athugið þó að þrátt fyrir mögulega lokun gilda venjulegar skilareglur,“ sagði þar ennfremur. Færsluna má sjá hér að neðan.