Það styttist heldur betur í bolludaginn en hann rennur upp mánudaginn 4. mars næstkomandi. Fyrirtæki mörg hver eru þegar byrjuð að bjóða upp á bollutengdar vörur í aðdraganda þessa mikla hátíðardags en Matvælastofnun varar nú við neyslu á vatnsdeigsbollum frá Myllunni sem hafa best fyrir dagsetninguna 04.03.2019 fyrir þá sem eru með ofnæmi eða óþol fyrir mjólk.
Ástæðan er sú að vegna mistaka vantaði mjólk í innihaldslýsinguna.
Nákvæmt vöruheiti er: Vatnsdeigsbollur 6 stk. og Vatnsdeigsbollur litlar 6 stk.
Mjólk og mjólkurafurðir eru á lista yfir ofnæmis- eða óþolsvalda. Samkvæmt matvælalöggjöfinni á að merkja ofnæmis- eða óþolsvalda með skýrum hætti á umbúðum matvæla. Viðskiptavinir sem hafa ofnæmi eða óþol fyrir mjólk og mjólkurafurðum er bent á að neyta vörunnar ekki og farga eða skila henni í þeirri verslun þar sem hún var keypt.
Tekið skal fram að vörurnar eru skaðlausar þeim sem ekki eru viðkvæmir fyrir mjólk og mjólkurafurðum.
