Forsvarsmenn Icelandair Hotels hafa hætt við að draga laun af þeim starfsmönnum sem eru félagsmenn Eflingar og voru á frívakt á meðan á verkfallsaðgerðum stéttarfélagsins stóð þann 8. og 22. mars síðastliðinn.
Vísir greindi frá því í gær að Icelandair Hotels hefði dregið laun af starfsfólki þó það hefði ekki verið á vakt umrædda verkfallsdaga.
Mbl.is greinir frá því að Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels, hefði komið þessari ákvörðun á framfæri við starfsfólk í tölvupósti í dag.
Í tölvupóstinunm segist Magnea harma framgöngu forsvarsmanna Eflingar í fjölmiðlum.
„Enda er hún í þversögn við yfirlýstar sáttaumleitanir þeirra við þau fyrirtæki sem verkfallið náði til,“ segir í tölvupósti til starfsfólks Icelandair Hotels.
Magnea segir að forsvarsmenn Eflingar hefðu ekki leitað til sín til að leiðtrétta túlkun Icelandair Hotels á greiðslum félagsins til félagsmanna Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir í tilkynningu frá stéttarfélaginu í dag að Efling hefði gefið út ítarlegar skriflegar leiðbeiningar um rétt á greiðslum úr vinnudeilusjóðum.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, skrifar á Facebook-síðu sinni við deilingu á frétt mbl.is að Icelandair Hotels hafi af örlæti sínu ákveðið að „aflétta hóprefsingum gegn starfsfólki fyrir að fara í löglega boðaðar verkfallsaðgerðir.“
Hann segir framgöngu forsvarsmanna Icelandair Hotels gott dæmi um mikilvægi þess að fá sektarákvæði í lög.
