Clay Chastain fékk alvarlega höfuðáverka þegar hann, ásamt eiginkonu sinni, Acaimie, var í fjallgöngu á karabísku eyjunni Sankti Kitts.
Hjónin höfðu náð toppi fjallsins þegar Clay ákvað að klifra niður í gíginn til að virða betur fyrir sér gróðurinn.

Acaimie heyrði hjálpar- og sársaukaóp eiginmanns síns og dreif sig að gígnum þar sem hún sá hann liggjandi á jörðinni og blóð rann úr höfuðsári.
Henni tókst að komast ofan í gíginn og svo hjálpaði hún manni sínum að klifra upp með mikilli fyrirhöfn.
Þegar þau gerðu sér grein fyrir því að engir fleiri göngugarpar væru nærri og sáu að ekkert símasamband væri uppi á fjallinu ákváðu þau að ganga alla leiðina aftur niður sem tók þau þrjár klukkustundir.
Acaimie, sem er aðeins 157 cm. há, sagði: „Hann studdist mikið við mig og hann tók andköf og spurði mig endurtekið hversu langt væri eftir.“
„Það er kraftaverk að hann hafi náði að halda sér uppi svona lengi miðað við meiðslin,“ sagði Acaimie í samtali við fréttastofu Indianapolis Star.
„Það er kraftaverk að hann sé ekki alvarlegar slasaður. Það var magnað í mínum augum að hann hafi ekki brotið nein bein,“ bætti hún við.