Systir árásarmannsins sem varð níu manns að bana í skotárás í borginni Dayton í Ohio-ríki er meðal þeirra sem létust í árásinni. Hún hét Megan Betts og var 22 ára. BBC greinir frá.
Þetta kom fram á blaðamannafundi þar sem fórnarlömb skotárásarinnar voru nafngreind.
Ekki er vitað hvað árásarmanninum, hinum 24 ára Connor Betts, gekk til en hann var skotinn til bana af lögreglu á vettvangi.
Árásin var gerð aðeins 13 tímum eftir að 21 árs karlmaður varð 20 manns að bana í stórmarkaðnum Walmart í borginni El Paso í Texas-ríki Bandaríkjanna.
