Hinn 21 árs gamli Angel Reinosa, bað um aðstoð samstarfsfélaga sinna í gegnum talstöðvarkerfi lögreglunnar síðasta miðvikudag. Reinosa sagði félögum sínum að hann hafi verið skotinn á meðan hann gekk út í bíl sinn við stöðina. Lögreglan var með mikinn viðbúnað eftir tilkynninguna, lokaði götum og sérsveit gekk í nærliggjandi hús og leitaði að leyniskyttunni.
Ótrúleg heppni og skortur á ummerkjum
Í fyrstu var talið að skothelt vesti sem Reinosa klæddist hafi bjargað lífi hans en þó hafi önnur byssukúla hruflað öxl hans. Í yfirlýsingu embættisins daginn eftir atvikið var greint frá því að kúla hafi hæft Reinosa efst í öxlina, eyðilagt skyrtu hans án þess að hafa valdið áverkum á húð hans.Athygli vakti þó að engar kúlur fundust á vettvangi og þá þótti heppni Reinosa vera grunsamleg.
Rannsókn fór af stað og nú hefur Reinosa viðurkennt að hafa skáldað frásögn sína og notað hníf til þess að skera göt í skyrtuna sína.
Reinosa hefur verið rekinn úr starfi og á yfir höfði sér ákæru vegna lyganna. Hann hefur ekki útskýrt hvað hann ætlaði sér með lygunum. Reinosa starfaði hjá embættinu í rúmt ár og hafði verið staðsettur í borginni Lancaster, norður af Los Angeles síðan í maí
Rýmdu hús og stöðvuðu lestir í leitinni
Eins og áður sagði var viðbúnaður lögreglu mikill. Sérsveitir ruddust inn í hús í leit að leyniskyttunni. Hús voru rýmd og íbúum var gert að forðast svæðið í kringum stöðina. Einnig var þyrla notuð við leitina. Þá var áætlunarferðum lesta frestað á meðan að aðgerðir lögreglu stóðu yfir.Leit að leyniskyttunni stóð yfir fram á næsta dag en þá lýsti lögregla eftir honum.
