Í yfirlýsingu frá fangelsismálayfirvöldum Kaliforníu, þar sem Sirhan situr inni, segir að fangi hafi verið stunginn, fangaverðir hafi brugðist skjótt við og að líðan fangans sé stöðug. Ekki var greint frá nafni fangans en heimildir AP greina að um sé að ræða Sirhan.
Vitað er hver árásarmaðurinn er og hefur hann að sögn verið færður í einangrun.
Sirhan Sirhan var sakfelldur fyrir morðið á forsetaframbjóðandanum Robert F. Kennedy, bróður fyrrverandi Bandaríkjaforseta John F. Kennedy, árið 1968. Robert Kennedy hafði þá stuttu áður lýst yfir sigri í forvali demókrataflokksins í Kalíforníu á stuðningsfundi hans á Ambassador hótelinu í Los Angeles.
Sirhan skaut Kennedy af stuttu færi til bana og kenndi stuðningi Kennedy við Ísrael þar um en Sirhan var fæddur og uppalinn í Palestínu. Var hann dæmdur til dauða en eftir afnám dauðarefsingar var refsingu hans breytt í lífstíðarfangelsi.
