Skoðun

Tryggjum barninu öryggi og vellíðan

Þorlákur Helgi Helgason skrifar
Hvernig var tekið á móti þér þegar þú steigst þín fyrstu skref í skóla? Hvaða minningar eigum við úr skóla? Hverjir voru bestu vinirnir/bestu vinkonurnar í skólanum? Var komið fram við þig af virðingu og á þínum forsendum? Leið þér vel í skólanum?

Við höfum beitt okkur fyrir því að skólar geti stuðst við Olweusar­áætlunina gegn einelti. Hún er byggð á áratuga reynslu á Íslandi allt frá því að við hófum innleiðingu hennar árið 2002. Mikil þekking hefur safnast fyrir í þeim skólum sem fylgja áætluninni. Og reyndar hefur þekkingin og færnin flust milli skóla með starfsfólki sem hefur verið þátttakendur í áætluninni. Frá byrjun hafa um eitt hundrað skólar innleitt Olweusar­áætlunina að hluta eða í heild.

Einelti teygir anga sína um allt samfélag okkar. Einnig til skólanna. Sérhver skóli á að styðjast við eineltisáætlun. Það er nauðsynlegt að rækta starfið gegn einelti alla daga með öllum ráðum sem eru talin bera árangur. Við vitum hvað það er sem skiptir mestu máli – ef verið er að tryggja nemendum öryggi og vellíðan. Langvarandi slæmt einelti hefur afgerandi áhrif á börn og unglinga. Það eltir viðkomandi um ókomin ár ef það tekur sér bólfestu í sálinni. Sá sem beitir sér fyrir því að barn sé lagt í einelti veit innst inni að það skaðar þann sem verður fyrir.

Olweusaráætlunin nær til allra þátta skólastarfs. Er hluti af heild þar sem þátttakendur eru börnin í skólanum, starfsfólks skólans, foreldrar – og teygir anga sína um allt skólasamfélagið. Við viljum nefnilega að sömu reglur gildi í félags- og tómstundastarfi og eru í skólanum. Olweusaráætlunin er eins konar umgjörð um nemandann. Barninu á að líða vel í skólanum og við viljum beita áhrifaríkustu aðferðum til að svo megi verða.

Í upphafi skólaárs er fyrir mestu að skólasamfélagið sameinist um að efla velferð nemandans. Við viljum vera með á þeirri velferð.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×