Þeir William G. Kaelin yngri frá Harvard-háskóla, Peter J. Ratcliffe frá Francis Crick-stofnuninni í London og Gregg L. Semenza frá Johns Hopkins-háskóla hljóta verðlaunin í ár. Nóbelsnefndin tilkynnti þetta í Stokkhólmi í morgun.

Það hafi lengi verið leyndardómur hvernig frumur aðlagast þegar framboð á súrefni sveiflast til eða frá.
Verðlaunahafarnir hafi leitt í ljós hvernig virkni gena breytist eftir því sem styrkur súrefnis í umhverfi breytist. Hæfileiki frumna til að aðlagast súrefnisstyrk er talinn lykilástæða þess að dýrategundir hafi numið land á svo ólíkum búsvæðum.
Vísindamennirnir þrír fá níu milljónir sænskra króna í verðlaunafé, jafnvirði rúmra 113 milljóna íslenskra króna.