Skoðun

Falstrú

Ingunn Lára Kristjánsdóttir skrifar
Efasemdamaðurinn Ebbi gengur hröðum skrefum eftir Aðalstræti og rykið þyrlast upp í loftið kringum hann.

Konur með innkaupapoka horfa á eftir fallega manninum með fína hattinn. Þær hugsa: „En hve myndarlegur sá maður er, sem er með áfangastað í huga.“

Fyrir neðan skilti Fjallkonunnar, tímarits dagsins í dag og dagsins á morgun, situr heldri maður með olíulukt í fanginu. Það er Skúli úrsmiður sem reynir að selja mönnum og börnum svokölluð rafmagnsúr og bjöllur. Hvílík della, hugsar efasemdamaðurinn.

Ebbi hefur engan tíma að missa og ber enga kveðju með sér, nei, hann gengur beinustu leið að dyrum, skellir á eftir sér, skellir niður hattinum á borðið og æpir á ritstjórann: „Ég er æpandi reiður og vil fá að tjá mig!“

„Já,“ svarar ritstjórinn og tæmir pípuna sína í tóbakstunnuna. „Um hvað snýst málið?“

„Eyðslusemi og falstrú borgarbúa,“ hnussar Ebbi.

„Hvers kyns eyðslusemi og falstrú fær þig til að skella hér hurðum, móður og másandi?“ spyr ritstjórinn og fyllir á pípuna.

„Eyðslusemin að lýsa upp stofur, anddyri og eldhús tífalt meira en vani hefur verið. Ljós! Ofbirta slík að ómögulegt er að lesa og skrifa. Jafnvel konur eru farnar að lýsa eldhús sín meira en danssalir forðum voru lýstir! Ég vil borða heima hjá mér en ekki í Breiðfjörðsleikhúsi!“

„Iss!“ svarar ritstjórinn. „Veistu ekki að framtíðin spillir ei?“

„O, jú víst,“ hugsar efasemdamaðurinn og kveður skrifstofu Fjallkonunnar.

Efasemdamaðurinn veit vel að framtíðin mun spilla fyrir öllum og hvers vegna er henni hampað?

Hvað hefur framtíðin gert fyrir hann!

Ekkert!




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×