Jóhanna Ása Evensen, rekstrarstjóri Kattholts, segir hugmyndina hafa komið frá víðförlum og reynslumiklum starfsmanni Kattholts, Önnu Katrínu.
„Hún hefur m.a. unnið í kisuathvarfi í Amsterdam og datt í hug að byrja með kisujóga þegar hún og jógakennarinn sem stendur að tímanum, Jóna Dögg Sveinbjörnsdóttir, voru í rauðvínsjóga á dögunum. Í Amsterdam kynntist hún einmitt kisujóga og kisubíói og er stefnan tekin á fleiri kisuviðburði á næstunni. Við stefnum á að halda kisubíó í nóvember eða desember að ógleymdum jólabasar Kattholts sem verður í húsakynnum Kattholts, Stangarhyl 2, laugardaginn 30. nóvember. Svo verður stefnan tekin á fleiri kisujógatíma eftir áramót.“
Kisur labba á milli jógagesta og fá klapp og knús
„Kisujógað fer þannig fram að þátttakendur gera jógaæfingar eftir handleiðslu kennarans og á meðan eru kisurnar frjálsar á gólfinu og labba á milli jógagesta og biðja um klapp og knús. Kostirnir eru miklir, þar sem rannsóknir hafa margoft sýnt fram á að umgengni við dýr eykur tilfinningalega og líkamlega vellíðan.“
„Kisurnar voru þreyttar en glaðar eftir að hafa borðað nammi úr höndum jógagesta nær allan tímann.“