Skoðun

Þegar gleðin breytist í sorg

Anna Lísa Björnsdóttir skrifar
Árið 2011 var örlagaríkt ár. Árið sem ég varð móðir og árið sem ég missti barn.

Að fara tómhent af fæðingardeild var eitthvað sem ég hefði ekki getað ímyndað mér að væri hægt, áður en ég upplifði það.

Þessi tilfinning, að vera móðir án barns, finna fyrir kærleikanum en geta ekki beint honum í „náttúrulegan“ farveg, varð kveikjan að starfi Gleym mér ei – styrktarfélags þeirra sem missa á meðgöngu eða rétt eftir fæðingu.

Við fundum kröftum okkar farveg, þrjár mæður sem áttum þessa sameiginlegu lífsreynslu og vildum gera okkar besta til þess að þeir foreldrar sem þyrftu að upplifa svona missi myndu fá fræðslu, fá tíma til þess að kveðja börnin og finna styrk hvert í öðru. Vitneskjan um að aðrir skilji hvað þú ert að ganga í gegnum, meðal annars í gegnum stuðningshópinn sem Gleym mér ei heldur úti, gefur okkur styrk í sorginni. Það fundum við Þórunn og Hrafnhildur strax árið 2013 þegar við héldum fyrstu minningarstundina.

Samúð og samkennd

Það getur verið erfitt fyrir aðstandendur þeirra sem missa á meðgöngu að vita hvernig á að bregðast við, hvað er „hjálplegt“ að segja eða gera. Samúð og samkennd eru grunnur að samskiptum í sorg, en það er líka skiljanlegt að fólk finni fyrir minnimáttarkennd þegar „hið ómögulega“ gerist, að barn deyi á undan foreldrum, þá eru engin rétt viðbrögð nema kærleikur.

Í kvöld klukkan 20 í Fríkirkjunni er sjöunda minningarstundin um börnin sem við fáum ekki að sjá útskrifast, ekki að sjá vaxa úr grasi og fylgjumst ekki með læra að takast á við sorgir og gleði í lífinu. Í sjöunda skipti kveikjum við á kertum fyrir lítil ljós, njótum þess að elska þau og minnast, og við aðstandendur fáum að vera saman. Samvera í kærleik hjálpar okkur að læra að lifa með sorginni.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×