Íslenskt knattspyrnuáhugafólk ætti að fylgjast vel með gengi Portúgala og Svisslendinga í lokaumferðinni í þeirra riðlum í undankeppni EM 2020.
Króatía, Austurríki, Þýskaland og Holland komust öll áfram á EM í gær og um leið varð það hundrað prósent öruggt að Ísland verður með í umspilinu. Nú er bara að bíða eftir því hvort Portúgalar eða Svisslendingar tryggi okkur heimaleik í undanúrslitunum.
Portúgal og Sviss eru einu A-þjóðirnar, fyrir utan Ísland, sem hafa ekki tryggt sér farseðilinn á EM.
Báðar þjóðir eru samt í algjöru dauðafæri, því Svisslendingum nægir jafntefli á móti Gíbraltar og Portúgal þarf að vinna Lúxemborg.
Eins og staðan er núna þá er Ísland þriðja stigahæsta liðið inn í umspil A-deildarinnar. Til að Ísland verði númer eitt eða tvö, og fái heimaleik í undanúrslitunum, þarf annaðhvort Portúgal eða Sviss að fara upp úr sínum riðli.
Komist Portúgal og Sviss bæði áfram þá hoppar íslenska landsliðið upp í sæti númer eitt í styrkleikaröðun umspils A-deildarinnar. Liðið fær því „lakasta“ liðið af þeim sem hafa ekki tryggt sér sæti í umspilum B og C-deildanna.
Best fyrir Ísland að Portúgal og Sviss komist áfram
Óskar Ófeigur Jónsson í Chisinau skrifar
