Benny Gantz, leiðtoga Bláa og hvíta bandalagsins, tókst ekki að mynda nýja ríkisstjórn í Ísrael frekar en Benjamin Netanyahu, leiðtoga Likudflokksins. Ísraelsk stjórnmál halda því áfram að vera í algerum hnút.
„Frá og með deginum í dag og í 21 dag til viðbótar mun ég veita þjóðþinginu, Knesset, frest til þess að mynda nýja ríkisstjórn,“ sagði Reuvin Rivlin, forseti landsins, í gær. Ef ekki tekst að mynda stjórn fyrir 12. desember mun hann því boða til enn einna kosninga, snemma á næsta ári. Þegar hefur verið kosið tvisvar til þings á þessu ári, í apríl og september. Röðuðust sætin þannig upp að illmögulegt var að mynda 61 manns meirihluta sem til þarf.
Er þetta í fyrsta skipti í sögu landsins sem forseti biður þingið sjálft um að mynda stjórn. „Pólitísk örlög ykkar eru ekki jafn mikilvæg og örlög gamallar konu á spítala,“ sagði Rivlin og reyndi að höfða til ábyrgðar þingsins.
Gantz og Netanyahu, sem fengu nánast sama fylgið í kosningunum, hafa báðir sagt að þeir muni halda viðræðum áfram næstu vikur. Helsti ásteytingarsteinninn er forsætisráðherraembættið sjálft, en til tals hefur komið að þeir skiptist á. Báðir vilja hins vegar hefja kjörtímabilið sem forsætisráðherra.
Fól þinginu að mynda nýja stjórn

Tengdar fréttir

Samið um vopnahlé milli Ísraela og liðsmanna PIJ
Tveir dagar eru síðan átök blossuðu upp í kjölfar loftárásar Ísraela þar sem háttsettur PIJ-maður lét lífið ásamt konu sinni.

Breyta afstöðu sinni til landtökubyggða Ísraela
Bandaríkjamenn hafa síðustu áratugi litið svo á að byggðin sé í trássi við alþjóðalög eins og alþjóðasamfélagið er að mestu leyti sammála um.

Gantz tókst ekki að mynda nýja stjórn í Ísrael
Góðar líkur eru nú á því að boða þurfi til enn einna þingkosninganna í Ísrael, þeim þriðju síðan í apríl síðastliðinn.