Norska kvennalandsliðið í handbolta, sem Þórir Hergeirsson stýrir, tapaði fyrir Rússlandi, 28-33, í leiknum um bronsið á HM í Japan.
Þetta er í fyrsta sinn sem Noregur vinnur ekki til verðlauna eftir að hafa komist í undanúrslit á stórmóti undir stjórn Þóris.
Hann hefur stýrt Noregi á 13 stórmótum og á þeim hefur liðið unnið til tíu verðlauna; sex gull, tvö silfur og tvö brons.
Norska liðið byrjaði betur í bronsleiknum í dag en um miðjan fyrri hálfleik náði það rússneska yfirhöndinni. Rússar breyttu stöðunni úr 9-8 í 9-13 og náðu góðu forskoti sem þær létu ekki af hendi. Staðan í hálfleik var 15-18, Rússlandi í vil.
Í seinni hálfleik náði Noregur aldrei að minnka muninn í minna en tvö mörk og Rússland vann nokkuð öruggan sigur, 28-33.
Stine Oftedal og Emilie Arntzen skoruðu sjö mörk hvor fyrir norska liðið.
Holland og Spánn mætast í úrslitaleik HM klukkan 11:30. Hvorugt liðið hefur áður orðið heimsmeistari.
HM:
2009 - brons
2011 - gull
2013 - 5. sæti
2015 - gull
2017 - silfur
2019 - 4. sæti
EM:
2010 - gull
2012 - silfur
2014 - gull
2016 - gull
2018 - 5. sæti
ÓL:
2012 - gull
2016 - brons