Reiðir stuðningsmenn Malmö eru ekkert hættir að skemma styttuna af Zlatan Ibrahimovic og virðist aðeins vera tímaspursmál hvenær búið verður að rústa styttunni.
Það er ekkert langt síðan styttan var reist fyrir utan heimavöll félagsins borgarbúum til mikillar gleði enda Zlatan frægasti sonur borgarinnar.

Svíinn tók síðan þá stórfurðulegu ákvörðun að kaupa 25 prósent í Hammarby. Sú ákvörðun fór vægast sagt illa í stuðningsmenn Malmö sem réðust strax að styttunni og reyndu meira að segja að kveikja í henni.
Í gær voru síðan menn mættir með sagir og gerðu heiðarlega tilraun til þess að saga styttuna niður. Það tókst ekki alveg þó svo sjái vel á styttunni.
Lögreglan hefur nú sett girðingu í kringum styttuna því hún gæti fallið. Þá væri verra að vera undir henni.