Örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar sem eiga rétt á desemberuppbót fá í dag, á Þorláksmessu, greidda út 10 þúsund króna eingreiðslu sem Alþingi samþykkti í síðustu viku að greiða skyldi út til þeirra nú í desember.
Kveðið er á um eingreiðsluna í lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020. Er greiðslan til viðbótar við desemberuppbót ársins 2019 og telst ekki til tekna greiðsluþega. Þá leiðir hún ekki til skerðingar annarra greiðslna.
Tryggingastofnun ríkisins greiðir 10 þúsund krónurnar út til þeirra sem eiga rétt á greiðslunni. Samkvæmt upplýsingum þaðan mun greiðslan berast í dag, eftir að lögin þar sem kveðið er á um greiðsluna birtust í Stjórnartíðindum.
Öryrkjar fá 10 þúsund króna eingreiðsluna í dag
