Þó svo að skiptum í þrotabúi félagsins F-Capital ehf. hafi lokið fyrir rúmum 8 árum voru skiptalokin fyrst auglýst í Lögbirtingablaðinu í dag. Gjaldþrotið nam rúmlega 15 milljörðum króna og ekki fékkst króna upp í kröfurnar.
F-Capital var dótturfélag Baugs Group til heimilis að Túngötu 6 í Reykjavík, eins og mörg önnur félög Baugs. Áætlað var árið 2010, ári eftir gjaldþrot Baugs, að heildarkröfur í þrotabú félaga sem skráð voru í Túngötu 6 næmu um 550 milljörðum króna.
Félagið F-Capital var tekið til gjaldþrotaskipta um miðjan desember 2010, en þess verður helst minnst fyrir að hafa haldið á þriðjungs eignarhlut í Mosaic Fashions sem eins og nafnið gefur til kynna hélt utan um tískutengda eignarhluti. Undir Mosaic Fashions voru þannig reknar tískuvöruverslanir á borð við Karen Millen, Warehouse, Oasis, Anoushka G og Coast.
Skiptum í F-Capital var lokið rúmu ári frá gjaldþrotaúrskurði, í febrúar árið 2012, og segir skiptastjórinn Jóhannes Albert Sævarsson í samtali við Ríkisútvarpið að þá hafi kröfuhöfum og skiptabeiðanda verið tilkynnt um skiptalokin. Aftur á móti hafi láðst að auglýsa það opinberlega í Lögbirtingablaðinu, um mannleg mistök hafi verið að ræða sem bætt var úr í dag.
Jóhannes segir að kröfuhafarnir í þrotabú F-Capital hafi verið tveir. Tollstjóri hafi lagt fram kröfu upp á 800 þúsund krónur og Arion banki kröfu upp rúma á 15 milljarða. Sem fyrr segir var búið eignalaust og fékk því ekkert upp í kröfurnar tvær.