Edwin van der Sar, framkvæmdastjóri Ajax, hefur staðfest að Manchester United hafi sýnt hollenska landsliðsmanninum Donny van de Beek áhuga.
Van Der Sar þekkir vel til hjá United en hann lék með félaginu á árunum 2005-11. Hann segir að United sé ekki eina stórliðið sem vilji fá Van De Beek.
„Það er alveg ljóst að félög á borð við Real Madrid og Manchester United hafa áhuga á Donny van de Beek,“ sagði Van Der Sar.
Talið er að United muni bjóða 36 milljónir punda í Van De Beek sem á tvö ár eftir af samningi sínum við Ajax.
Van De Beek, sem er 23 ára miðjumaður, hefur leikið með Ajax allan sinn feril. Hann átti stóran þátt í því að Ajax vann tvöfalt og komst í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu tímabilið 2018-19.
Enginn meistari var krýndur í Hollandi í vetur en tímabilinu var aflýst vegna kórónuveirufaraldursins.