Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur boðað til upplýsingafundar klukkan 14:00 í dag. Á fundinum verður farið yfir stöðu mála varðandi opnun landamæra og kórónuveirufaraldurinn hér á landi.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, Páll Þórhallsson, verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn munu svara spurningum og fara yfir stöðuna á fundinum.
Rúm vika er frá því að skimun á landamærunum hófst fyrir ferðamenn innan Schengen-svæðisins. Þá er áætlað að ytri landamæri Evrópusambandsins opni þann 1. júlí næstkomandi.
Átta virk smit eru á landinu en nýjustu tölur verða uppfærðar klukkan 13. Ellefu hafa greinst við landamæraskimun.
Sem fyrr verður fundurinn sýndur í beinni útsendingu hér á Vísi og á Stöð 2 Vísi. Þá verður hægt að fylgjast með beinni textalýsingu frá fundinum klukkan 14.