Flest stærstu nöfn íþróttaheimsins voru búin að tjá sig um Kobe Bryant eftir að hann fórst í þyrluslysi á sunnudaginn en ekkert hafði heyrst í LeBron James fyrr en í nótt.
LeBron James hafði kvöldið áður en Kobe lést komist upp fyrir hann og í þriðja sætið á listanum yfir stigahæstu leikmenn NBA deildarinnar frá upphafi.
LeBron James makes his first comments since the tragic passing of Kobe Bryant and his daughter, Gianna: pic.twitter.com/KwXj33URan
— FOX Sports (@FOXSports) January 28, 2020
LeBron James tjáði sig um Kobe Bryant í framhaldinu og sagði meðal annars það vera gríðarlegan heiður við sig að vera nefndur á sama tíma og Kobe.
Ekkert heyrðist frá LeBron James fyrsta sólarhringinn eftir slysið en hann sendi frá sér langa færslu á Instagram í nótt.
LeBron James sagðist þar vera „harmi lostinn og eyðilagður“ og hann sagðist líka vilja segja svo miklu meira en hann gæti það ekki því hann kemst bara ekki í gegnum það. Hann sagði hjarta sitt vera hjá Vanessu og börnum þeirra.
„Ég bókstaflega heyrði röddina þína á sunnudagsmorguninn áður en ég fór frá Philly og aftur til LA. Átti ekki von á því í milljón ár að það yrði síðasta samtalið okkar,“ skrifaði LeBron James.
LeBron James fór lengra því hann lofaði Kobe Bryant líka að halda arfleið hans á lofti en bað um leið um styrk frá æðri máttarvöldum og endaði á því að setja inn #Mamba4Life og #Gigi4Life.