Starfsfólk og íbúar sem fóru í sýnatöku eftir að smit kom upp á hjúkrunarheimilinu Hömrum í Mosfellsbæ reyndust ekki smitaðir. Kristín Högnadóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunarsviðs Eirar, segir niðurstöðurnar vera miklar gleðifréttir.
Starfsmaður á Hömrum greindist með kórónuveirusmit á fimmtudag og hafði mætt til vinnu í stuttan tíma áður en hann komst að því að náinn ættingi hafði greinst með smit. Ákveðið var að starfsfólk og íbúar sem höfðu mögulegu getað verið útsettir fyrir smiti færu í sýnatöku og fór sú sýnataka fram í gær.
Í samtali við fréttastofu segir Kristín það létti að ekki fleiri hefðu greinst með veiruna. Stefnt sé að því að hópurinn fari aftur í svokallaða seinni sýnatöku á mánudag en öllum aðgerðum vegna smitsins verður þó viðhaldið næstu tvær vikurnar.
„Við munum halda okkar sýkingarvörnum og aðskilja einingar til þess að tryggja að fólk sé ekki að fara á milli,“ segir Kristín. Hún segir vel hægt að viðhafa tveggja metra regluna inni á einingunni og allt kapp verði lagt á það að tryggja öryggi íbúa.