Martin Hermannsson og félagar í Alba Berlín unnu magnaðan sigur í framlengingu í sínum síðasta leik fyrir bikarúrslitaleikinn í þýska körfuboltanum.
Alba mætir Oldenburg í bikarúrslitaleiknum á sunnudag eftir 45 mínútna spennuleik gegn Ulm í kvöld. Heimamenn í Ulm virtust vera að tryggja sér sigur þegar þeir komust í 96-93 aðeins 9 sekúndum fyrir leikslok en Peyton Siva jafnaði metin með þriggja stiga flautukörfu og því þurfti að framlengja.
Í framlengingunni voru Berlínarbúar sterkari en í henni skoraði Martin tvö stig og átti tvær stoðsendingar. Lokatölur urðu 112:106. Samtals átti Martin tíu stoðsendingar í leiknum auk þess að skora átta stig. Hann hitti þó ekki úr neinu af átta þriggja stiga skotum sínum í leiknum.
Alba er í 3. sæti þýsku deildarinnar með 26 stig og leik til góða á efstu tvö liðin. Bayern München er langefst með 34 stig en Ludwigsburg er með 28.
Í sænsku úrvalsdeildinni unnu Elvar Már Friðriksson og félagar í Borås liðið í 3. sæti, Köping Stars, 88-77. Elvar átti flottan leik en hann skoraði 15 stig, átti 7 stoðsendingar og tók 4 fráköst. Borås styrkti því stöðu sína á toppnum en liðið hefur unnið 24 af 28 leikjum sínum og er fjórum stigum á undan Luleå sem er í 2. sæti. Köping Stars eru með 38 stig.