Kolbeinn Kristinsson, annar af tveimur íslensku atvinnuboxurunum, átti að æfa með Tyson Fury í aðdraganda bardaga hans við Deontay Wilder.
Fury sigraði Wilder í sannkölluðum risabardaga á laugardaginn. Fyrir bardagann skipti Fury um þjálfara og byrjaði að æfa hjá Javan „SugarHill“ Stewart í hinni goðsagnakenndu Kronk æfingastöð í Detroit í Bandaríkjunum.
SugarHill er einnig þjálfari Kolbeins og til stóð að hann myndi hjálpa Fury að undirbúa sig fyrir bardagann stóra.
„Ég átti upphaflega að fara í æfingabúðirnar með Fury. Ég átti að fara út þegar það voru þrjár vikur í bardagann en þá sagðist SugarHill ætla að geyma mig. Tyson væri að berja alla í klessu í æfingabúðunum og ég myndi ekki fá neitt út úr því að koma nema að verða laminn. Þess vegna fór ég ekki núna en við byrjum örugglega að æfa saman í sumar í Kronk,“ sagði Kolbeinn í samtali við Vísi.
Hann hefur ekki enn hitt Fury en það gerist væntanlega fyrr en seinna að þeir byrji að æfa saman.
„Ég hef oft átt að fara í æfingabúðir með honum en það hefur einhvern veginn alltaf dottið upp fyrir á síðustu stundu,“ sagði Kolbeinn sem heldur utan til Detroit á fimmtudaginn til að undirbúa sig undir næsta bardaga sinn.
Eftir úrslit helgarinnar er mikil eftirspurn eftir því Englendingarnir Fury og Anthony Joshua mætist í hringnum. Kolbeinn vill frekar sjá þann bardaga en Fury og Wilder mætast í þriðja sinn.

„Ég vil sjá Joshua. Miðað við hvernig þessi bardagi fór eru engin rök fyrir því að taka þriðja bardagann. Þetta er eins og ef þú tapar 5-0 í fótbolta, þú getur ekki beðið um annan leik,“ sagði Kolbeinn og bætti við að bardagi við Fury væri mikilvægur fyrir Joshua.
„Hann verður að gera þetta til að fá viðurkenningu sem alvöru meistari. Hann verður að vinna stórt nafn og ég held að þessi bardagi verði að veruleika, þ.e.a.s. ef Joshua vinnur bardagana sem hann þarf að vinna.“
Kolbeinn segir að það yrði spennandi að fá að æfa með Fury fyrir bardagann við Joshua.
„Ég er svona 90% viss um að ég verð í þeim æfingabúðum. Hann talaði um að hann vildi hafa mig frá byrjun í næstu æfingabúðum Furys.“