Öldungadeildarþingmaðurinn Amy Klobuchar hefur ákveðið að draga framboð sitt í forvali Demókrata vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum til baka.
Hún hyggst styðja Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, í forvalinu en frá þessu er greint á vef New York Times og haft eftir heimildarmanni sem stendur Klobuchar nærri.
Ákvörðun Klobuchar kemur degi eftir að Pete Buttigieg tilkynnti að hann ætlaði að draga sig í hlé í kapphlaupinu um að hljóta útnefningu Demókrata en á morgun er hinn svokallaði ofur-þriðjudagur í forvalinu þegar gengið er að kjörborðinu í fjórtán ríkjum.
Klobuchar vakti töluverða athygli þegar hún lenti óvænt í þriðja sæti í forvalinu í New Hampshire í síðasta mánuði. Hún hefur hins vegar ekki náð að fylgja eftir því góða gengi í öðrum ríkjum þar sem forval hefur farið fram í aðdraganda ofur-þriðjudagsins.
Eftir brotthvarf Buttigieg og nú Klobuchar berjast fimm manns um að hljóta útnefningu Demókrataflokksins, þau Bernie Sanders, Joe Biden, Michael Bloomberg, Elizabeth Warren og Tulsi Gabbard.
Fréttin hefur verið uppfærð.
