Líkamsræktarstöðvarnar World Class og Sporthúsið hyggjast hefja starfsemi á ný á morgun, innan þess ramma sem kveðið er á um í reglugerð heilbrigðisráðherra um íþróttastarf sem taka á gildi í fyrramálið. Forsvarsmenn líkamsræktarstöðva eru sammála um að fyrirmæli stjórnvalda um starfsemina séu alls ekki nógu skýr.
Ný reglugerð um aðgerðir og takmarkanir vegna kórónuveirunnar tekur gildi á landinu á morgun, 19. október.
Fram kemur í reglugerðinni sem birt var á vef heilbrigðisráðuneytisins í gær að heimilt sé með skilyrðum að stunda íþrótta- og heilsuræktarstarfsemi á höfuðborgarsvæðinu „ef um er að ræða skipulagða hóptíma þar sem allir þátttakendur eru skráðir. Við þessar aðstæður er skylt að virða 2 metra regluna, þátttakendur mega ekki skiptast á búnaði meðan á tíma stendur og allur búnaður skal sótthreinsaður á milli tíma. Sameiginleg notkun á búnaði sem er gólf- loft- eða veggfastur, s.s. á heilsuræktarstöðvum, er óheimil.“
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir leggur til minnisblaði sem hann skilaði til ráðherra í síðustu viku að líkamsræktarstöðvar, sem gert var að loka í byrjun þessa mánaðar, verði áfram lokaðar. Þá verði æfingar og keppni í íþróttum „inni sem úti hjá börnum og fullorðnum sem krefst snertingar“ ekki heimilar. Þórólfur sagði á upplýsingafundi almannavarna vegna veirunnar í dag að hann teldi ekki ráðlegt að opna líkamsræktarstöðvar á ný í ljósi þess að slíkar stöðvar væru aðaluppspretta faraldursins sem nú gengur yfir.
Stefna á opnun - með fyrirvara
Líkamsræktarstöðvar World Class hyggjast þó hefja starfsemi að nýju á morgun, með fyrirvara um breytingar þó, að því er fram kemur í tilkynningu á vef World Class í dag. Starfsemin verður með eftirfarandi hætti:
Hámark 19 manns í alla skipulagða tíma (auk þjálfara):
- Tveggja metra regla verður viðhöfð og tryggð í tímum
- Allir vinna með sinn búnað
- Búnaður verður sótthreinsaður milli tíma
- Tímalengd verður hámark 50 mínútur til að tryggja að hópar mætist ekki og sótthreinsun verði tryggð
- Hver tími hefur sér inngang í sal og sér salernisaðstöðu merkta viðkomandi sal
- Einungis þeim sem eru skráðir í tíma verður hleypt inn í húsnæði World Class
- Öll notkun á búnaði sem er gólf, loft- eða veggfestur er óheimil
Geta ekki setið eftir
Þröstur Jón Sigurðsson eigandi Sporthússins segir í samtali við Vísi að eins og staðan sé núna sé hann að bíða frekari fyrirmæla frá stjórnvöldum. Hann hyggist þó bjóða upp á þjónustu á morgun.
„Við förum að reglugerðum og þeim reglum sem okkur eru settar og reynum að vanda til verka. En við erum í samkeppni og getum ekki setið eftir. Ef okkur er heimilt að opna þá verðum við að opna eins og aðrir,“ segir Þröstur.
„Við munum því bjóða upp á alla hóptíma; hjólatíma, Crossfit, jóga og aðra þjónustu – í lokuðum hópum með tveggja metra reglunni. En það eina sem maður er í raun að kalla eftir eru skýr skilaboð. Mér finnst rosalega sérstakt að þeir sem vinni þetta fyrir heilbrigðisráðuneytið hafi ekki samráð fyrir einhvern í bransanum.“

Ágústa Johnson framkvæmdastjóri Hreyfingar segir í samtali við Vísi að engin áform séu uppi um að opna stöðvar Hreyfingar á morgun. Hún hafi skilið sóttvarnalækni þannig eftir upplýsingafundinn í dag. Ágústa tekur þó í sama streng og Þröstur og segir fyrirmæli stjórnvalda alls ekki skýr.
Guðríður „Gurrý“ Torfadóttir, eigandi Yama heilsuræktar, hyggst heldur ekki opna á morgun. Hún greinir frá því í færslu á Instagram-reikningi heilsuræktarinnar í dag að ræktinni verði áfram lokað út þessa viku.
„Þetta er gert með hagsmuni viðskiptavini minna að leiðarljósi. Faraldurinn er í rénun en á viðkvæmum stað og tel ég með að bíða fram yfir helgi og sjá þróunina við vera öruggari saman," segir í færslu Gurrýjar.
Sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að hann muni ræða betur við heilbrigðisráðuneytið um umrætt misræmi í reglugerð ráðuneytisins annars vegar og tilmæla hans hins vegar.