Neyðarástandi hefur verið lýst yfir á Spáni vegna kórónuveirufaraldursins sem þar geisar og útgöngubanni um nætur hefur verið komið á. Forsætisráðherrann Pedro Sánchez segir að nýju reglurnar verði fyrst í stað í gildi í tvær vikur, en að hann muni leggja það fyrir þingið að þær verði framlengdar um sex mánuði.
Spánverjar takast nú á við aðra bylgju faraldursins eftir að hafa orðið sérstaklega illa fyrir barðinu á veirunni í fyrstu bylgju. Flest öll önnur Evrópuríki hafa nú einnig gripið til harðari aðgerða vegna uppgangs veirunnar en samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni fjölgaði staðfestum tilfellum veirunnar í heiminum um rúmlega 465 þúsund í gær.
Það var þriðji dagurinn í röð sem met var sett í fjölda staðfestra smita á heimsvísu, þótt á það skuli bent að ríki heims hafa tekið sig mjög á í skimun fyrir veirunni sem skýrir að hluta aukningu smita.