Donald Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseti, tilkynnti á Twitter fyrir skömmu að Mark Esper væri á förum úr embætti varnarmálaráðherra og að Christopher C. Miller, yfirmaður andhryðjuverkastofnunar Bandaríkjanna, væri tekinn við sem starfandi varnarmálaráðherra.
I am pleased to announce that Christopher C. Miller, the highly respected Director of the National Counterterrorism Center (unanimously confirmed by the Senate), will be Acting Secretary of Defense, effective immediately..
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) November 9, 2020
...Chris will do a GREAT job! Mark Esper has been terminated. I would like to thank him for his service.
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) November 9, 2020
Esper var starfandi varnarmálaráðherra í einn mánuð, sumarið 2019, áður en hann tók varanlega við embætti í júlí 2019. Á síðustu vikum hefur reynt verulega á samband hans við forsetann. Ástæðan er að Esper setti sig á móti því að bandaríska hernum yrði beitt til þess að lægja mótmælaöldur sem risu í mörgum borgum Bandaríkjanna eftir að George Floyd var drepinn í haldi lögreglu í maí síðastliðnum.
Í síðustu viku greindi NBC-fréttastofan frá því að Esper hefði þegar ritað uppsagnarbréf. Hann hafi því mögulega vitað í hvað stefndi.
Eins og áður sagði greindi Trump einnig frá því að Christopher C. Miller tæki við embættinu, í það minnsta tímabundið. Í tísti sínu benti forsetinn á að Miller hefði þegar verið samþykktur af þinginu í þá stöðu sem hann gegndi áður en hann tók við embætti varnarmálaráðherra.
Óttast að Trump ráðist í hernaðaraðgerðir
Í frétt New York Times segir að þrátt fyrir að Trump eigi aðeins rúma tvo mánuði eftir í embætti geti sviptingar innan varnarmálaráðuneytisins verið þýðingarmiklar. Þannig hafi embættismenn innan ráðuneytisins óopinberlega lýst áhyggjum sínum af því að Trump myndi ráðast í hernaðaraðgerðir, leynilegar eða ekki, gegn Íran eða öðrum ríkjum sem forsetinn telur óvinveitt Bandaríkjunum, á síðustu dögum hans í forsetastól.
Þá segir í frétt NYT að þeir sem standi Miller næst telji hann ekki vera í slíkum metorðum innan bandaríska stjórnkerfisins að hann geti sett sig upp á móti þeim ákvörðunum sem forsetinn kynni að taka um hernaðarmál.