Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, er sagður ætla að skipa Janet Yellen í embætti fjármálaráðherra. Yellen var stefnuráði Seðlabanka Bandaríkjanna á árinum 2008 og 2009 og varð svo seðlabankastjóri árið 2014. Í forsetatíð Bill Clinton var Yellen þar að auki hans helsti ráðgjafi þegar fjárhagskreppa varð í Asíu.
Nú á Yellen að taka við fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna í miðri efnahagskrísu vegna faraldurs nýju kórónuveirunnar og miklu atvinnuleysi.
Verði Yellen skipuð í embættið, eins og fjölmiðlar vestanhafs staðhæfa, yrði hún fyrsta konan til að taka við stjórn fjármálaráðuneytisins í nærri því 232 ára sögu þess, samkvæmt AP fréttaveitunni. Hún varð einnig fyrsta konan til að verða seðlabankastjóri.
Hagfræðingar búast við því að dreifing bóluefna muni leiða til aukins hagvaxtar á næsta ári en vara við því að hraði og umfangs viðsnúnings velti að miklu leyti á því hvort þingið muni samþykkja neyðarpakka til að koma hagkerfinu í gegnum næstu mánuði.
Yellen hefur lýst því yfir að hún styðji frekari neyðaraðgerðir og þá sérstaklega til yfirvalda í ríkjum og borgum Bandaríkjanna, sem hún segir þurfa umfangsmikla aðstoð. Hún segir að verði slík aðstoð ekki veitt myndi það hægja verulega á viðsnúningi í hagkerfinu.
Viðræður um slíkan pakka á milli Demókrata, sem stjórna fulltrúadeildinni, og Repúblikana, sem stjórna öldungadeildinni, hafa þó engu skilað í marga mánuði. Samkvæmt AP hafa þær sérstaklega strandað á umræðum um fjárhagsaðstoð til ríkja.
Biden er einnig sagður ætla að skipa Antony Blinken sem utanríkisráðherra, en sá mun einnig hafa næg verkefni fyrir höndum.