Leikmenn Napoli léku í sérstakri treyju í fánalitum Argentínu, hvítum og ljósbláum, til að heiðra minningu Maradonas sem lést á miðvikudaginn. Maradona er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Napoli en hann lék með liðinu á árunum 1984-91 og leiddi það til tveggja ítalskra meistaratitla.
Lorenzo Insigne, fyrirliði Napoli, kom sínum mönnum yfir með frábæru skoti beint úr aukaspyrnu á 31. mínútu. Hann fagnaði með því að halda á og kyssa treyju merkta Maradona.
Á 64. mínútu sendi Insigne boltann á Fabián Ruiz sem skoraði með skoti fyrir utan vítateig. Dries Mertens og Matteo Politano skoruðu svo tvö mörk undir lokin og 4-0 sigur Napoli staðreynd.
Napoli hefur unnið báða leiki sína eftir að Maradona féll frá. Á fimmtudaginn sigraði Napoli Rijeka, 2-0, í Evrópudeildinni.
Napoli er í 2. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar með átján stig, fimm stigum á eftir toppliði AC Milan sem vann Fiorentina, 2-0, í gær.