Storytel tilkynnti um fyrirætlanir sínar um kaup á 70% hlut í Forlaginu, stærstu bókaútgáfu landsins, í sumar. Annar seljanda og eigandi meirihluta hlutafjár í Forlaginu, bókmenntafélagið Mál og menning átti að fara áfram með 30% hlut í félaginu sem var ætlað að starfa áfram sem sjálfstætt bókaforlag, aðskilið frá streymisveitu Storytel á Íslandi. Fyrirhugaður samruni var háður samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Í tilkynningu frá Storytel og Forlaginu í dag segir að fyrirtækin hafi komist að „langtímasamkomulagi“ sem feli í sér „stórátak í raf- og hljóðbókavæðingu bóka Forlagsins og dreifingu efnisins hjá Storytel, að fengnu samþykki höfunda hverju sinni.“
Þannig hafi samningsaðilar sett sér það markmið að framleiða að minnsta kosti 600 hljóðbækur á næstu árum, bæði nýja og gamla titla. „Þetta þýðir að tilkynning um fyrirhugaðan samruna hefur formlega verið dregin til baka,“ segir í tilkynningu.
Haft er eftir Stefáni Hjörleifssyni landsstjóra Storytel á Íslandi að fyrirtækin hafi undanfarna daga leitað „bestu mögulegu lausna fyrir íslenska hlustendur, lesendur og höfundar“. Niðurstaðan sé samkomulagið sem undirritað var í dag.
Teikn á lofti um að samruninn yrði ekki samþykktur
Samruninn varð nokkuð umdeildur þegar tilkynnt var um hann í sumar. Vísir greindi frá því að rithöfundar væru uggandi yfir fréttunum og símalínur Rithöfundasambands Íslands hefðu verið rauðglóandi í kjölfar fréttanna.
Ragnheiður Tryggvadóttir framkvæmdastjóri sambandsins sagði að áhyggjur rithöfunda sneru að mörgum þáttum er varðaði samninginn. Helsta áhyggjuefnið væri þau áhrif sem það kynni að hafa á íslenska bókaútgáfu að erlendur aðili ætti 70 prósenta hlut í stærsta bókaforlagi landsins.
Stefán Hjörleifsson landsstjóri Storytel á Íslandi segir í samtali við Vísi að þessi óánægja rithöfunda hafi ekki haft áhrif á ákvörðunina um að rifta samrunanum. Skiptar skoðanir hafi verið um fyrirætlanirnar, jákvæðar og neikvæðar, og Storytel hafi fundið fyrir auknum áhuga á vettvangnum meðal höfunda undanfarið.
Samruninn var tilkynntur til Samkeppniseftirlitsins sem kallaði eftir sjónarmiðum í ágúst síðastliðnum. Stefán segir að teikn hafi verið á lofti um að eftirlitið hygðist ekki samþykkja samrunann, þó að úrskurður þess efnis liggi ekki fyrir. Því hefði verið ákveðið að draga samrunann til baka. Með samningnum í dag væri farin „mildari leið“ til að bjóða upp á efnið sem um ræðir.
Vísir hefur sent Páli Gunnari Pálssyni forstjóra Samkeppniseftirlitsins fyrirspurn vegna málsins.
Fréttin hefur verið uppfærð.