Biden segir að starfsmenn framboðs síns séu ekki að fá þær upplýsingar sem þeir þurfi og eigi rétt á frá Trump-liðum. Sakaði hann Trump og starfsmenn hans um að ógna öryggi Bandaríkjanna. Án nákvæmra upplýsinga um staðsetningu hermanna og fjárlagavinnu í varnarmálaráðuneytinu sé erfitt að skipuleggja og að óvinir Bandaríkjanna gætu nýtt sér óreiðuna.
Right now, my team isn t getting all the information that we need from the outgoing administration in key national security areas.
— Joe Biden (@JoeBiden) December 29, 2020
It s nothing short of irresponsible. pic.twitter.com/T67NbgSFLl
Stjórnarskiptin fara formlega fram þann 20. janúar næstkomandi.
Trump hefur þó alfarið neitað að viðurkenna ósigur í forsetakosningunum í nóvember og hefur reynt að snúa niðurstöðunum með ýmsum leiðum. Trump heldur því fram að umfangsmikið kosningasvindl hafi kostað hann sigur. Í aðdraganda kosninganna staðhæfði hann að svindl væri að eiga sér stað og gerði hann slíkt hið sama fyrir og eftir kosningarnar sem hann vann 2016.
Trump og bandamönnum hans hefur þó ekki tekist að færa sönnur fyrir því að kosningasvindl af þessari stærðargráðu hafi átt sér stað. Tugir dómsmála hafa verið höfðuð af Trump-liðum en þeim hefur langflestum verið vísað frá eða málaflutningi þeirra hafnað.
Biden og Kamala D. Harris, verðandi varaforseti, funduðu með ráðgjöfum sínum varðandi þjóðaröryggi og utanríkismál í gær. Þar á meðal voru nokkrir sem Biden ætlar að tilnefna í ráðherrastöður.
Eftir fundinn sagði Biden að samkvæmt ráðgjöfum sínum sem hafi verið að skoða ástand stofnana sem snúa að þjóðaröryggi Bandaríkjanna, sé ljóst að þær stofnanir hafi orðið fyrir gífurlegum skaða í forsetatíð Trumps.
Starfsfólki hafi fækkað verulega, geta minnkað og starfsandi sömuleiðis.
Christopher Miller, starfandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, mótmælti ummælum Bidens í gærkvöldi og sagði hundruð embættismanna hafa fundað með starfsmönnum Bidens að undanförnu. Þeir væru að standa sig mun betur en fyrri ríkisstjórnir.
Eins og fram kemur í grein Washington Post stöðvaði Miller þó alla fundi þann 18. desember og sagðist hafa gert það í samráði við framboð Bidens en þar á bæ neituðu menn því. Engir fundir hafa átt sér stað í varnarmálaráðuneytinu síðan.