43 starfsmönnum hjá Skaganum 3X var sagt upp störfum í dag. Vilhálmur Birgisson, verkalýðsforingi á Akranesi, greinir frá þessum tíðindum og segir ástæðuna samdrátt.
Skaginn 3X samanstendur af hátæknifyrirtækinu Skaganum, 3X Technology og Þorgeiri & Ellert.
„Ég fékk þau döpru tíðindi áðan að fyrirtækin Skaginn 3x og Þorgeir&Ellert hafi tilkynnt uppsagnir í dag til 43 starfsmanna hér á Akranesi vegna samdráttar. Það þarf ekkert að fjölyrða um að ástandið á vinnumarkaðnum mun verða gríðarlega erfitt vegna Covid 19 og þess mikla efnahagssamdráttar sem af veirunni hlýst,“ segir Vilhjálmur.
Í Fréttablaðinu í fyrrasumar kom fram að Skaginn 3X væri með um 300 starfsmenn. Þar af störfuðu um 200 á Akranesi, um 70 á Ísafirði en aðrir væru í Reykjavík.
Segja má að um enn eitt áfallið í atvinnulífinu á Akranesi sé að ræða. Margt fólk hefur misst vinnuna í fiskvinnslu á Skaganum undanfarin ár.